Valencia

gróskumikil og spennandi borg, staðsett í ægifögru landslagi

Valencia

Valencia á suðausturströnd Spánar er þriðja stærsta borg landsins á eftir Madrid og Barcelona. Íbúafjöldinn í sjálfri borginni eru yfir 800 þúsund en ein og hálf milljón búa á svæðinu ef aðliggjandi byggðalög eru talin með. Borgin markar norðurenda hinnar 200 km löngu strandlengju Costa Blanca, sem nær alla leið til Alicante í suðri.

Valencia er afar falleg borg, en um leið gróskumikil og spennandi – hún er staðsett í ægifögru landslagi sem einkennist af fjalllendi og fagurri ströndinni. Borgin er að stórum hluta lágreist og þétt og þar mætast gamli og nýi tíminn í arkitektúr og byggingalist. Oft er talað um að á þessu svæði finni maður anda hins gamla Spánar, hér eru spænskar hefðir og menning í öndvegi og mikil og merkileg saga blasir við manni við hvert fótmál.

Gamli bæjarhlutinn er vinalegur og heillandi, þar iðar allt af litskrúðugu mannlífi með verslanir og veitingastaði á hverju strái, en þess má geta að þjóðarréttur Spánverja, paella, er upprunninn í Valencia. Hvort sem þú aðhyllist safnalist eða matarmenningu, næturlíf, skoðunarferðir eða bara sólbað og notalegheit; þá hefur Valencia allt það að bjóða sem ferðafólk leitar að í nútímalegu borgarsamfélagi við Miðjarðarhaf.

Í Valencia er mikið úrval verslana og þar er að finna búðir með öll þekktustu vörumerki heims. Auk verslunarhverfa og -miðstöðva er mikið um litlar sjálfstæðar verslanir sem selja allt milli himins og jarðar og götumarkaðir eru haldnir í hverri viku. Meðal áhugaverðra staða til að fara og versla má nefna Central-markaðinn sem er mjög vinsæll, þar er bæði götu- og flóamarkaður ásamt verslunarmiðstöð; Columbus-markaðurinn er svo fagurskreytt bygging í anda Gaudi sem hýsir m.a. veitingastaði, kaffihús, bari, bókabúðir og blómabúðir o.fl.

Í borginni miðri er Turia-garðurinn, mjög fallegur almenningsgarður sem er sannkölluð útivistarparadís með ótal möguleikum á afþreyingu fyrir börn og fullorðna. Skammt þar frá er svo „City of Art and Science“, það er þyrping nútímalegra hvítra bygginga í Avant Garde-stíl þar sem m.a. er að finna óperuhús Valencia og sædýrasafnið Oceanografic sem er eitt hið magnaðasta í heimi. Stærsta stöðuvatn Spánar er að finna í Albufeira-garðinum sem er friðland og eitt mikilvægusta votlendissvæði Spánar. Þar er mikil gróðursæld, villt dýralíf og margar sjaldgæfar fuglategundir.

Mikið úrval veitingastaða er í Valencia, að sjálfsögðu er mesta áherslan á matargerð með rætur í menningu Spánar og Miðjarðarhafsins þó finna megi mat frá öllum heimshornum. Þjóðarrétturinn „paella“ er auðvitað vinsælastur enda hér á heimavelli, afbrigðin eru hins vegar óteljandi og má segja að hvert veitingahús sé með sína eigin útfærslu. Fyrir þá sem elska sjávarfang er svæðið við höfnina algerlega málið með miklu úrvali góðra sjávarréttastaða.

Valencia er í alla staði yndisleg borg sem býður upp á óendanlega möguleika á að njóta lífsins í dásamlegu umhverfi og einstakri veðursæld við Miðjarðarhafið.

Umsagnir viðskiptavina

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.