Helsinki

Höfuðborg Finnlands, umkringd stórbrotinni náttúru

Helsinki

Hin glæsilega höfuðborg Finnlands hefur verið útnefnd European Capital of Smart Tourism 2019. Nafnbótin er viðurkenning fyrir afburða árangur í að takast á við áskoranir nútíma ferðamennsku sem lúta að sjálfbærni, aðgengileika, nýtingu stafrænnar tækni, menningararfleifð og sköpun.

Íbúar Finnlands eru fimm og hálf milljón, þar af býr um ein og hálf milljón á stór-höfuðborgarsvæðinu en 630 þúsund búa í Helsinki sjálfri. Finnar eru frábærir heim að sækja enda voru þeir titlaðir hamingjusamasta þjóð heims árið 2018 samkvæmt World Happiness Report. Líkt og Íslendingar verma Finnar yfirleitt eitthvert toppsætanna í alþjóðlegum könnunum sem mæla lífsgæði og hamingju fólks.

Helsinki er borg sem er byggir á traustum innviðum, samgöngukerfin eru nútímaleg og skilvirk, velferðarkerfið er öflugt og finnska menntakerfið er álitið skara fram úr á heimsvísu. Stórbrotin og hrífandi náttúra umlykur borgina með endalausum möguleikum á útivist og afþreyingu.

Finnar eru frægir fyrir arkitektúr, byggingalist og hönnun sem leika stórt hlutverk í finnskri menningu eins og skynja má við hvert fótmál í Helsinki. Fyrir sérlegt áhugafólk á þessu sviði er upplagt að heimsækja Punavuori-hverfið (Rödbergen), þar eru fjölmörg gallerí og vinnustofur auk margra spennandi sérverslana af ýmsum toga.

Við höfnina í Helsinki er markaðstorgið Kauppatori sem hreinlega iðar af mannlífi, þar er lífleg verslun með ýmiss konar matvörur og minjagripi – við bryggjuna er síðan boðið upp á bátsferðir þar sem siglt er um næsta nágrenni eða til nærliggjandi eyja. Steinsnar frá torginu eru forsetahöllin, ráðhúsið og fleiri athyglisverðir staðir sem vert er að skoða.

Í Helsinki er mikið og gott úrval frábærra veitingastaða og sérstaklega hefur nýnorræn matargerðarlist fest sig rækilega í sessi í borginni. Hún byggir á þeirri hugmyndafræði að nota einungis úrvals hráefni úr nánasta umhverfi og nýta hefðir af norrænum uppruna til að reiða fram hollan og góðan mat með umhverfisvernd og sjálfbærni að leiðarljósi.

Ekki er hægt að heimsækja Helsinki án þess að bregða sér finnskt gufubað, sauna, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur í menningu og sögu Finna, bæði sem heilsubætandi en ekki síður félagslegt fyrirbæri. Yfir sumartímann er það útbreiddur siður meðal Finna að hoppa út í eitt af óteljandi vötnum landsins til að kæla sig niður að gufubaðinu loknu. Á veturna hlaupa Finnarnir hins vegar út úr sauna-klefanum og velta sér upp úr snjó eða stinga sér til sunds ofan í vakir á ísilögðum vötnunum.

Umsagnir viðskiptavina

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.