Berlín

Ein mest spennandi borg í heimi, kraftmikil, fjörug og skapandi

Berlín

Berlín er höfuðborg og jafnframt stærsta borg Þýskalands, bæði hvað varðar mannfjölda og umfang, með rúmar 3,7 milljónir íbúa. Frá 1961 til 1989 var borginni skipt í tvennt með hinum tæplega 170 km langa múr, sem var táknmynd fyrir kalda stríðið og skiptingu Þýskalands.

Austur-Berlín var þá höfuðborg alþýðulýðveldisins (DDR) á meðan Bonn var höfuðborg Vestur-Þýskalands. Eftir fall múrsins og sameiningu landsins var þingið ásamt fleiri stofnunum flutt til Berlínar og hún var gerð að höfuðborg Þýskalands á nýjan leik.

Á meðan Vestur-Berlín var einangruð eyja í miðju Austur-Þýskalandi lögðu stjórnvöld í Bonn mikla áherslu á að halda þar sem blómlegustu samfélagi með ýmis konar stuðningi við borgarbúa. Þar var ódýrt að búa og framfleyta sér á þýskan mælikvarða, það var ein helsta ástæða þess að ungt fólk víða að úr heiminum tók að flytjast til Berlínar og gerir enn.

Berlín er óumdeilanlega ein mest spennandi borg í heimi, kraftmikil, fjörug og skapandi, sannkallaður suðupottur menningar og lista.

Borgin skiptist upp í mörg hverfi sem hvert hefur sinn karakter og kjarna; Kreuzberg, Mitte, Alexanderplatz og Neukölln svo fáein séu nefnd, en enginn einn sérstakur miðbær er skilgreindur sem slíkur í Berlín.

Áin Spree rennur í gegnum borgina en alls nema skóglendi, garðar, vötn og ár um þriðjungi af landssvæðinu sem borginni nær yfir og því er auðvelt fyrir Berlínarbúa að komast í margs konar útivist og tæri við náttúruna. Almenningssamgöngur í borginni eru mjög góðar, það er einfalt að komast allra sinna ferða með neðanjarðarlestunum (U-bahn) eða með strætó. Berlín er tiltölulega flöt og því fekar auðvelt að ganga um borgina en snjallt er að leigja sér reiðhjól og kynnast henni þannig.

Í sögulegu tilliti er Berlín ein merkilegasta borg í heimi, hún hefur verið vettvangur margra atburða sem markað hafa djúp spor í sögu Evrópu. Allir sem til Berlínar koma ættu því að grípa tækifærið og heimsækja einhverja þeirra sögulegu staða sem eru í borginni.

Fyrir áhugafólk um byggingar og söfn er t.d. tilvalið að heimsækja Museuminsel, eða safnaeyjuna, þar sem fimm flott söfn standa þétt saman á litlu svæði. Síðan er upplagt að rölta eftir hinu fagra breiðstræti Unter den Linden þar sem sjá má fjölmargar merkilegar byggingar og ganga alla leið að hinu fræga Brandenborgarhliði, en þar skammt frá er áhrifamikill minnisvarði um helförina.

Af öðrum stöðum sem er mikilvægt að sjá í Berlín má nefna þinghúsið Reichstag sem er magnþrungin bygging með mikla sögu, Checkpoint Charlie sem var frægasta hlið múrsins, fallegu höllina í Charlottenburg, leifarnar af Berlínarmúrnum, uppbygginguna á Potsdamer Platz og útsýnið úr sjónvarpsturninum á Alexanderplatz sem er gamli miðbærinn í austurhlutanum.

Þeir sem hyggja á verslunarferð hafa úr nógu að moða. Ein vinsælasta verlunargatan er Kurfürstendamm, eða „Kudamm“ eins og hún kallast í daglegu tali, 3,5 km löng með aragrúa verslana og vöruhúsa þar sem finna má allt milli himins og jarðar. Ómissandi er að kíkja við í KaDeWe eða Kaufhaus Des Westens, sem er þekktasta verslunarmiðstöð Þýskalands og ein sú allra stærsta í Evrópu, alls um 60 þúsund fermetrar.

Friedrichstrasse er svo önnur fræg og glæsileg verslunargata í gamla austurhlutanum þar sem dýrar og fínar merkjavörur eru mjög áberandi. Markaðir eru mjög vinsælir og ómissandi hluti af menningunni í Berlín, sá stærsti er haldinn á hverjum sunnudegi í Mauerpark.

Matarmenningin í borginni er alþjóðleg og fjölbreytt og þar má finna frábæra veitingastaði af öllu tagi með mat frá öllum heimshornum. Skemmtana- og næturlífið í Berlín er litskrúðugt og ævintýralegt enda hefur hún löngum verið þekkt fyrir glamúr og glæsileika. Allt morar í alls kyns börum og búllum, knæpum og klúbbum, kaffihúsum, bjórgörðum, kokteilbörum og tónleikastöðum Fyrir þá sem kjósa frekar annars konar menningu er gráupplagt að skella sér á kabarett eða óperu, í leikhús eða á sinfóníutónleika – það er engu logið með það að í Berlín blómstrar menningin bókstaflega á öllum sviðum.

Umsagnir viðskiptavina

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.

Er ferðin styrkhæf?

Endurmenntunarferðirnar okkar eru styrkhæfar. Kynntu þér möguleikana hjá þínu stéttarfélagi eða hafðu sambad og við aðstoðum.

Fáðu tilboð

Við sérnsníðum ferð fyrir hópinn þinn. Hjá okkur starfa sérfræðingar með breiðan bakgrunn og áratuga reynslu. Fáðu tilboð frá okkur í draumaferðina.